04.03.2020 15:33

Kanínubúið hættir

Jæja gott fólk,nú er mál að linni en vegna heilsubrests þá ákvað ég að hætta með kanínurnar.
Þær síðustu sem seldust fóru austur fyrir fjall og þar með verða engar kanínur hér.
Ég vil þakka öllum fyrir skemmtilegar heimsóknir og kynni,það hefur verið mér sönn ánægja að hitta ykkur öllsömul.

Ef þið eruð að leita að holdakanínum þá held ég að eini staðurinn sem enn er að rækta þær sé hún Agnes Helga Steingrímsdóttir en hún býr á Kirkjulæk 3 í Fljótshlíðinni.

Takk öllsömul fyrir skemmtilega viðkynningu í þessu rúm 20 ár!30.05.2019 14:50

Kanínu ungar tilbúnir til afhendingar 24 Júní

Jæja þá eru fyrstu tvö gotin í ár orðin cirka 5 vikna og eru ungarnir bæði flekkóttir og einlitir.
Þeir sem eru á biðlista eru vinsamlega beðnir um að hafa samband en ungarnir mega fara á ný heimili þann 24 júní.
Engar myndir eru til í augnablikinu því ég eyddi öllum myndum af símanum mínum óvart en þær eiga að vera til á skýi og þarf ég að finna útúr því.

15.10.2018 19:04

Allar kanínur uppseldar í árÞau voru fá gotin í ár og allir ungar seldust upp enda nokkrir gamlir og góðir kúnnar sem voru búnir að panta með löngum fyrirvara.
Heimilin sem ungarnir fóru á eru algerlega til fyrirmyndar,þeir hefðu ekki getað verið heppnari með eigendur og aðstöðu.
Ég hef verið í góðu sambandi við suma og fengið sendar myndir og video brot.
Það hefur glatt mig mikið að sjá kanínurnar dafna og stækka hjá eigendum sínum.
Öll heimilin eru með útibúr og hlaupasvæði fyrir þær og einnig eru þær inni.
Þetta gefur dýrunum það svigrúm sem þær þurfa og hvíld á milli þess sem þær eru að leika sér og fá knús og dekur frá eigendum sínum.
Einnig er þetta fyrirkomulag að vera með útiaðstöðu fyrir þær hvíld fyrir eigendurnar og það er auðveldara að halda fínu hjá þeim.
Takk öll sem komuð hingað í sumar og haust og fengu kanínur hjá mér,það var gaman að kynnast ykkur.20.04.2018 19:45

Fyrsta læðan ársins 2018 að gjóta í dag.


Kill Bill að safna saman hálmi í hreiður.


Hún Kill Bill frá Lækjarbotnum er að gjóta núna 20 Apríl en hún var pöruð við högna sem er undan Barón og kanínukellingu sem er kölluð Ofurkanína af fyrrum eigenda enda mikil og stór kanína.
Kill Bill er sjálf undan Viktoríu frá Ásgarði og Dodda frá Ásgarði.
Tveir ungar eru þegar pantaðir og mikil spenna í gangi hjá væntanlegum eigendum.


Þrjár aðrar kanínu læður voru paraðar og verða það einu gotin í ár.24.02.2017 20:25

Kanínuparanir 2017 hafnar


Kanínu unglingur frá 2015

Jæja,þá eru fyrstu læðurnar á kanínubúinu búnar að hitta högna en ég paraði fyrstu pörun 20 Febrúar síðastliðinn.

Þessar læður voru paraðar um daginn:

Barón paraður við Bjöllu og Skessu

Lúpus paraður við Barónessu

Marsibilli paraður við Flekku

Á eftir að sjá hvort það gekk en Marsibilli var eitthvað klaufalegur enda í fyrsta skipti sem hann hittir læðu.
Fyrstu ungar ættu að komast í fyrsta lagi á sölulistann þann 20 Maí.
Fer samt eftir því hversu vel á legg þeir komast og hvort þeir séu enn á spena hjá móður sinni.
Vanalega er ég búin að færa læðuna frá þeim áður en nýjir eiendur taka við þeim til að auðvelda ungunum að fara á nýtt heimili.25.09.2016 22:28

Allar kanínur uppseldar!Sumarið var frekar erfitt en það dóu nokkuð margir kanínuungar og kenni ég því um hve heitt var í veðri en tvær heyrúllur í röð ofhitnuðu og heyið fór að mygla.
Um leið og ég fékk nýtt og alveg skráfaþurrt og gott hey þá fóru allir að braggast.

En núna síðla sumar þá seldust upp þeir ungar sem til voru á búinu.

Reyndar eru til örfáir castor rex ungar til sölu en ég mæli ekki með þeim nema fyrir alveg spez fólk því rexarnir eru mun aktívari og vilja síður kúra og hafa það kósý einsog stóru loop kanínurnar.

Ef þú telur þig vera alveg spez skilningríkann dýravin þá hafðu samband og mælum okkur mót til að kíkja á þessa sem til eru.

11.06.2016 00:40

5304 dóttir Birgit og Lúpus gaut í búrinu

Það getur stundum verið snúið að vera ung kanína að gjóta í fyrsta sinn og enginn hefur kennt manni hvernig á að fara að með stóran ungahóp og hvernig best sé að búa um hann.
Það fékk hún að reyna hún 5304 (Dóttir Birgit og Lúpus) en þegar að ég kom í kanínuhúsið í dag þá var hún búin að gera þetta fína hreiður inní búrinu í stað þess að þiggja gotkassann sem ég lét hana hafa.

Tveir ungar höfðu skriðið úr hreiðrinu enda engin brún til að koma í veg fyrir það og ekki tókst að koma hita í þá aftur og bjarga.

Ég tók mig til og setti dömuna í gotkassann sem hún þáði ekki og geymdi hana til hliðar á meðan ég græjaði nýjan gotkassa handa ungunum.

Setti ég vel af spónum/furuflís í botninn og svo vel af þurru heyi í og svo gerði ég holu fyrir innan og hafði hana þannig staðsetta að þegar að mamman stekkur inn í gotkassann þá lendir hún til hliðar við ungana en ekki ofaná þeim.


Svo tók ég alla þá fiðu sem laus var í búrinu og notaði sem botn í nýtt hreiður.

Færði svo ungana varlega og setti í hlýja holuna og fiðu yfir þá.
Þeir voru saddir og fínir og höfðu greinilega fengið nóg í mallann sinn af mjólk.

Vola,svona vel innpakkaðir í þykku og mjúku hreiðri.

Næst var að útbúa nýtt búr svona aðeins til að rugla læðuna þannig að hún væri ekki í sama búri og myndi ekki tryllast þegar að hún sæi að bæði ungar og hreiðrið var horfið.

Hún fékk vel af ilmandi heyi ásamt brauði,byggi og korni og setti ég hana í nýja búrið og hún fór strax að kanna allt saman og skoða og þefa af öllu og var lítið með hugann við annað.

Síðan hengdi ég gotkassann utaná búrið og læddist í burtu og hegðaði mér svo bara einsog vanalega og fór að gefa og sinna öllum hinum dýrunum og krossaði putta.

Eftir mikla skoðunarferð þá uppgötvaði hún gotkassann og hreiðrið með ungunum og tók hún sig fljótlega til við að reyta sig meira og bera inní kassann til að bæta betur af fiðu í hreiðrið.

Þetta tókst svona ljómandi vel og vonandi lifa allir 6 sem eftir eru en þeir voru 8 samtals.
4 flekkóttir og 4 einlitir.
3 flekkóttir og 3 einlitir lifa.

08.06.2016 15:50

Myndir af sölu ungunum 2016

Ungarnir eru að byrja að kom útúr gotkössunum og gaman að fylgjast með þeim.

Hér eru nokkrar myndir af þeim svona fyrir ykkur til að sjá þá en þeir verða tilbúnir að fara frá mömmunum strax í byrjun Júlí en þá verða þeir 8 vikna.


Barónessa átti 7 unga og alla einlita.
Hópurinn hennar Barónessu
Flekka kom með fjóra fallega unga þaraf tvo flekkótta

Algjörir krúttmolar
Hvít frá Lækjarbotnum kom með tvo flekkótta bolta


Ég á eftir svo að taka myndir af fleirum ungum og setja hér inn.

Farin útí góða veðrið gott fólk!

27.05.2016 13:25

Nýjir ungar og fallegum litum 2016

Þegar að sauðburði lauk þá byrjaði kanínu"burðurinn".Allt fullt af flottum ungum í flottum litum og það er stutt í að þeir fari á stjá og þá getur maður skoðað þá betur. Sumar læðurnar verða ansi fúlar ef maður er að kíkja í gotkassana á meðan aðrar eru hinar rólegustu??.

Mynd frá Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir


Ein Opal Rex læðan var nú ansi spör í sínu goti og kom með 1 unga og þið getið rétt svo ýmindað ykkur hve bústinn og fallegur hann er af allri mjólkinni sem hann fær.

Ég á alveg eftir að fara með almennilega cameru útí kanúnuhús og taka myndir af ungunum þegar að þeir fara að kíkja útúr gotkössunum en þá fær maður að sjá þá almennilega.
Skelli inn mynd sem ég tók í gær sem er betra en ekkert en hún er tekin á síma.


17.06.2015 23:29

Fyrstu 25 sölu ungarnir komnir með tattú í eyra

Það er aldeilis búið að vera stuð í stóra búrinu.
Hátt í 25 ungar sem taka á móti manni þegar að ég kem með byggskammtinn þeirra og set nýtt hey í netið.
Maður má passa sig að stíga ekki ofaná krílin sem að hópast að löppunum á manni að skoða hvað sé verið að koma með spennandi handa þeim.
Ég var að prófa að gera Excel skrá og eftir smá barning þá náði ég að hamra saman skrá sem ég er ánægð með.Ég er ekkert klár á svona vinnu í tölvu og þurfti að gúggla mig áfram með þetta en smá saman tókst þetta og nú er ég búin að prenta út listann og hef hann við stóra búrið svo hægt sé að sjá hver er hver og undan hverjum.
Á morgun koma svo kanínubændur að austan og ætla að skoða úrvalið og munu einhverjir gripir líklega eignast ný heimili.

Gulla
Ég paraði þann 15 Júní hana Gullu sem er ný læða á búinu með honum Barón og flekkótta læðu líka en ég man ekki nafnið sem fylgdi henni.

Barón nýji högninn á búinu.

Hér er þessi fína skrá sem ég var að monta mig með í þessu bloggi.


31.05.2015 19:00

Sölu ungar 2015 tilbúnir til afhendingarLoksins eru til flekkóttir ungar en það er alveg nýtt en sá litur kemur með læðunni Birgit sem er ný inná búið.Þeir eru undan Birgit og Lúpus og eru úr 8 unga goti fæddir þann 5 Mars.

Hinir ungarnir eru undan Bjöllu og Bigga löggu en þeir eru úr 5 unga goti og eru fæddir þann 6 Mars.Ég útbjó með góðri hjálp 16 fermetra búr handa þeim með dren mottum og svo settum við hálm undir þær sem þær bæði borða af og leika sér með.
Það er virkilega gaman að fylgjast með ungunum spretta úr spori og leika sér í svona stórri aðstöðu og gaman fyrir fólk að geta valið sér unga úr hópnum og geta tekið sér tíma til að spá og spegúlera hvaða kanína það verður sem fer með þeim heim.


Svo á næstunni bætast við fleiri ungar í stóra búrið þarsem hægt verður að velja sér kanínu til kaups.

Unginn kostar 6000-krónur og með honum fylgir bygg og stór heypoki.

Ég er yfirleitt við seinnipartinn eða eftir klukkan 17:00 flesta daga en það er um að gera að hringja á undan sér eða senda póst og mæla sér mót ef þið viljið koma og skoða.

Heitt kaffi og kakó fyrir alla.

Ransý sími 869-8192
ransy66@gmail.com22.03.2015 15:26

3 óseld ungdýr síðan 2014Þessi fallega hvíta læða nr 4904 er til sölu.


Hún er mjög forvitin og skemmtileg.
2 brúnir strákar eru einnig óseldir frá því síðastliðið haust en þeir eru undan Rósu og Nóa.

22.03.2015 15:14

Fyrstu kanínu ungar 2015 komnir í heiminn

Fyrstu 3 læðurnar eru gotnar og eru gotin frekar stór.Birgit Bardot og Lúpus komu með 8 unga og líklega eru þrír flekkóttir.
Birgit er rosalega góð móðir og reytti sig mikið og er hlýtt og notalegt hreiðrið hennar svona vel fóðrað.
Hún er mikil móðir og mjólkar rosalega vel.Bjalla og Biggi eru með svipaðann ungafjölda en ég hef ekki viljað telja hjá þeim vegna kulda en hreiðrið hjá Bjöllu er ekki eins vel fóðrað af kanínufiðu einsog hjá henni Birgit.

Þá er um að gera að leyfa ungunum að kúra í friði og ró.
Ég hef bara þefað ofaní þau hreiður sem ég hef ekki viljað hreyfa við ef það skildi vera að einhver ungi hafi drepist.Tinna 4407 sem er ný læða gaut líka frekar stóru goti en einn ungi drapst hjá henni en hann hefur orðið viðskila við systkini sín í hreiðrinu og ekki fengið sopann sinn og drepist.


03.02.2015 22:14

Pörun 2015 hafin

3 Febrúar

Ég er búin að liggja undanfarna daga yfir Rexunum en sú kanínutegund er sama sem að deyja út í húsinu hjá mér ef ég geri eitthvað ekki í því og það strax þá deyr hún út.

Mér telst til að ég eigi ekki nema 5-6 læður eftir og 8 högna.

Það er eins gott að spýta í lófana og fara að huga að því hver á að parast við hverjum svo ég geti aðgreint þessar tvær ættlínur sem enn er hægt að notast við.


Í dag eyddi ég deginum í að færa til ungdýr og tattúvera í eyru svo ég glati nú ekki niður ættunum á dýrunum og hver sé hver.

Hef ekki verið nógu dugleg við að merkja þau og það hefur komið fyrir að miðar yfir búrunum eða á búrunum hreinlega hverfi.
Stundum hafa kanínurnar sjálfar dregið þá inn með klemmunni og öllu saman og brytjað niður í leik.

En ég er sem betur fer með allt skrifað í kanínubókina góðu þannig að allt kemur þetta í ljós hver er hver að lokum.

Birgit Bardot og Lúpus
Kanínurnar hreinlega blómstra þessa dagana og það var kominn einhver titringur í dýrin og hún Birgit Bardot frá Hvammstanga var alveg æf í skapinu í dag!

Enda ekki skemmtilegt að láta tattúvera sig einsog smábarn en hún er fædd vorið 2014 hjá Birgit kanínuræktanda á Hvammstanga.
Hún var búin að týna merkinu sínu sem að hún fékk sem ungi og varð að fá tattú í staðinn.

Birgit kanína varð að lúta í lægra haldi og eftir miklar strokur og klapp eftir tattúið þá skyndilega reisti hún sig upp að aftan og þá skildi ég þennan pirring í dömunni!

Bíngó!
Ég þrammaði af stað með hana í fanginu til fundar við fallegan högna en hann Lúpus gamli varð fyrir valinu.

Þau voru ekki lengi að planleggja barneignir og drifum bara í þessu hviss bamm búmm!

Svo bauð Lúpus dömunni uppá brauð og bygg.

Biggi lögga með Bjöllu sína sem er alstærsta læðan á búinu.

Ekki er hægt að para bara eina læðu þannig að ég sótti glæsilegustu læðuna á búinu hana Bjöllu sem er kolsvört risastór holdalæða og hún hitti hann Bigga og þau voru ekki lenga að smella í krakkahóp og nú á ég von á glæsilegum ungum þann 3 Mars.


Biggi lögga að leika höfuðskraut,svo fattaði hann að það var ekki málið!

Þetta er svolítið snemmt en þarsem ég fæ úrvals nínubygg sent frá vinum mínum á Snæfellsnesinu þá bara fer allt á fullt í salnum dýrin  hreinlega blómstra af þessu góða fóðri sem byggið er.


Ég ætla að bíða með að para fleiri dýr þartil nær dregur Mars-Apríl.
Þetta er alveg í það fyrsta og verðum við að setja góða einangrun í botninn á gotkössunum fyrir þessar tvær dömur og hafa vökult auga með þeim þegar að þær fara að gjóta.

Ég ætlaði að loka fyrir sölu á kanínum 1 Febrúar en þá auðvitað æstust leikar og margir að hafa samband.

Það er eitthvað orðið lítið til af sölu kanínum en ég sé það betur þegar að ég er endanlega búin að raða upp læðunum í gotlínuna þarsem best fer um þær þegar að þær eru að gjóta og með unga í vor og sumar.

Þessi síðustu tvö sölugot frá því í September samanstanda af:

M:Rósa F:Nói Fæddir 7 September 2014
Brúnn högni 4901 til sölu
Brúnn högni 4902 til sölu
Brún læða   4903 til sölu

M:Silva F:Nói Fæddir 8 September 2014
Hvít læða 4904 til sölu
Silfur högni 4905 frátekinn
Silfur högni 4906 Stór og flottur! Til sölu

10.10.2014 23:45

Fjörug sala í sumar


Ungar undan Rikku og Lúpus fæddir 16 Apríl 2014

Hingað hafa kanínubændur komið og keypt sér kynbótadýr til áframhaldandi ræktunar og svo hefur einnig komið fólk og keypt sér gæludýr.

Það er alltaf gaman að sjá börnin hvað þau eru spennt að skoða kanínu ungana og einnig öll hin dýrin á bænum en hér eru ekki bara kanínur heldur einnig Kínverskar Silkihænur sem við seljum og Amerískar varphænur og einnig kindur og hestar.
Foreldrar eru mjög virkir í umhirðu kanínana og feðurnir oft búnir að smíða þessa líka fínu og flottu kofa útí garði.
Þar fer að sjálfsögðu best um dýrin og best að hirða um þau.
Núna er haust traffíkin að byrja og er það ársvisst að á vorin koma kúnnar streymandi að fá sér kanínur og svo dettur salan niður um mitt sumarið og byrjar aftur á haustin.
Nokkur margir álitlegir ungar eru til sölu núna í nokkrum litum.
Kanínunginn kostar 6000-krónur og með honum fylgir bygg og hey frítt fyrir fyrstu vikurnar á nýja heimilinu.
Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 299
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 332777
Samtals gestir: 94950
Tölur uppfærðar: 4.12.2021 09:34:46

Vafraðu um

Fána teljari


free counters

Kanínukonan ógurlega:)

Nafn:

Ingibjörg Rannveig Ingólfsdóttir (kölluð Ransý:)

Farsími:

869-8192

Afmælisdagur:

25 Júlí

Heimilisfang:

Ásgarði 250 Garði

Heimasími:

422-7363

Önnur vefsíða:

http://asgardur.123.is/

Um:

Er kanínubóndi til margra ára og ætla að halda þessu streði áfram enda með eindæmum þrjósk og þver manneskja:) Þrjóska og þolinmæði þrælvirkar í þessum búskap!

Kennitala:

250766-4839

Bankanúmer:

0157-05-400339

Tenglar